Kreppa
27.10.2008 | 12:19
Var að væflast inn á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar og þar var skemmtileg fúnksjón sem kallast "Örnefni Mánaðarins". Mér fannst nokkuð skemmtilegt að örnefni mánaðarins að þessu sinni var "Kreppa". Ég sé ekki að ég sé fær um hvorki að gera úrdrátt úr færslunni né orða hana betur svo að ég lími hana hér inn í upprunalegri útfærslu:
http://www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_nafn_ornefni_manadarins
"Kreppa er á sem kemur undan Brúarjökli, sameinast Kverká nokkru norðar og rennur síðan í Jökulsá á Fjöllum. Hún er vatnsmikil og erfið yfirferðar vegna sandbleytu. Þorvaldur Thoroddsen segir að hún sé "mikið og ljótt vatnsfall" (Ferðabók I:370). Nafnið Kreppa er ekki upphaflegt á ánni. Pétur Brynjólfsson sem fór um svæðið 1794 kallaði núverandi Kverkhnúka Dyngjufjöll og Kreppu Dyngjufjallaá. Sveinn Pálsson tók það nafn síðan eftir honum (Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I:262, III:280). Sveinn orðar það þannig í Jöklariti sínu: "og mætti nefna hana Dyngjufjallaá" eins og nafnið sé hans (Ferðabók II:471). Árið 1835 eða 1836 fór Pétur Pétursson á Hákonarstöðum um Ódáðahraun og yfir Kreppu og virðist hún þá bera það nafn (Þorvaldur, Ferðabók I:264). 1840 er sr. Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað á ferð með dönskum náttúrufræðingi, J.C. Schythe, um Vatnajökulsveg og fóru yfir Kreppu "við illan leik" (Þorvaldur, Ferðabók I:268). Kreppa er nefnd í sóknarlýsingu Hofteigssóknar 1840 (Múlasýslur, 64) og Björn Gunnlaugsson hefur nafnið á Íslandskorti sínu 1844. Nafnið virðist því hafa orðið til á fyrstu áratugum 19. aldar. Í Noregi er til örnefnið Kreppa "eit smalt sund ved Kragerø" á Þelamörk, og Kreppene er bær í Noregi, þar sem nafnið er flt. af nýnorsku kreppe kvk. "innsnevring (i farvatn)" (Norsk stadnamnleksikon, 266).
Nafnið Kreppa er annaðhvort dregið af þeirri mjóu tungu sem hún myndar með Jökulsá, Krepputungu, eða þrengslum í ánni, m.a. norðan við Fagradalsfjall, sbr. so. kreppa sem merkir eins og kunnugt er 'þrengja að'. Þórhallur Vilmundarson telur að áin dragi sennilega nafn af hinum miklu bugðum árinnar fyrir norðan Fagradalsfjall, skylt kroppur (Grímnir 1:115).
leiðirnar ekki greiðar;
kyrja þar dimman kvæðasón
Kverkfjallavættir reiðar;
fríð var í draumum fjallaþjófs
farsældin norðan heiðar,
þegar hann sá eitt samfellt hjarn
sunnan til Herðubreiðar.
(Jón Helgason, Úr Áföngum)"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.