Ég er fíflið!

Það er ljóst að ég hef setið fyrir framan tölvuna bróðurpartinn úr deginum við ritgerðarsmíð. Eftir langa og stranga ritbiðu (belg og biðu?) heyri ég kallað....... "nei við erum ekki byrjuð að borða við erum bara að bíða eftir að maturinn verði alveg að verða tilbúinn". Já, kannski í lagi að taka það fram að ég tók af mér heyrnartólin og hrópaði "HA?!" áður en ég fékk þetta svar.

Þar sem að það er nú laugardagur í þessum rituðum orðum þá fannst mér hæfilegt að nota tækifærið og skjótast út í krónu áður en það lokaði og grípa tómar kaloríur á gæðaverði. Það virðist reyndar vera "hæfið" á hverjum degi! Eða þá að ég sé búinn að þróa með mér mismunandi vikudagavitund og líti hvern dag sömu augum og laugardag. Það er kannski snjallt að breyta nöfnunum og kalla þá "laugardagur 1", "laugardagur 2" og svo framvegis. 

Við höfðum borðað fyrr en vani er á laugardegi 1 og því myndaðist rúm (ekki alvöru rúm, heldur rými... tímarými) fyrir þessa för fyrir 7 en samt eftir kvöldmatarleitið. Úti er/var heldur jólalegt slabb og slydda sem byrgði mér sýn þegar ég hafði sest undir stýri og var nánast lagður af stað áður en ég hafði vit fyrir því kveikja á rúðuþurrkunum.... blindur fær sýn? Það geri ég í miklu fáti og ekki laust við að smá örvænting einkenni fátið sem er á mér. Það verður þess valdandi að ég þeyti gífurlegu magni af gegnvotum snjó af rúðunni og til hliðar... ahhh, ég SÉ!!!!

 

Nágrannakonan (tek fram að þessi atburðarás er spunnin frá upphafi AÐ endinum, en ekki endirinn þó, þar sem að ég þekki nágrannakonuna svo gott sem ekki neitt) slær bókinni saman orðin hundþreytt í augunum eftir heljarmikinn lestur og hugsaði með sér "geta þeir ekki splæst í sómasamlega stóla ef maður á að þurfa að sitja hérna að prófarkalestri langt fram eftir mánudegi 6?". Hún stendur upp og réttir úr sér, finnur hvernig brakar í hryggnum og bölvar apanum sem hangir sem fastast á bakinu hennar.

Hún kippir sér ekki upp við slydduflyksurnar sem mæta henni þegar hún yfirgefur bygginguna sem hefur hneppt hana í þrældóm, en óbeint þó. Henni finnst eins og það sé slydda á hverjum degi en það er ekki laust við að jólasveinninn sem stendur í búðarglugganum við bílinn og vinkar henni nái að kalla fram einskonar bros, hennarskonar bros. 

Nágrannakonan sér hvernig ég hef bakkað í stæðið og hristir hausinn yfir þolinmæðinni í nýgræðinsökumanninum sem ekkert kann í bílstjórn. Hún er ekki þunglynd kona, því fer fjarri.... hún er kaldhæðin. Svo kaldhæðin að það standa logar út um munninn hennar þegar hún skammast í dóttur sinni, gelgjunni. Hún hafði komið við í krónunni og dróg út þrjá troðfulla innkaupapoka með íslensku góðgæti, góð hún gat!! Íslenskt játakk!! fyrir utan þúsunda króna sparnað!

Apinn hékk sem fastast eftir erfiðan vinnudag þegar hún stígur útúr bílnum sínum og sér hvar ég við annan mann valhoppa í slabbinu og út í bíl. Hún hleypir mér framhjá sér svo ég komist nú inn í bílinn minn og byrjar svo að rogast með nýþunga pokana af stað milli bílanna okkar þegar hún fær kalda vatnsgusu í andlitið! BÓKSTAFLEGA!!!!

 

 

kv. Þór "Ég er FÍFL" Ólafsson !!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já... En þú ert fíflið mitt! :)

Kara Hergils (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 19:55

2 identicon

Jáhh, ég skal ekki segja um hvort þú sért fífl, en mér finnst þetta helvíti skemmtileg saga! :)

En svo ég kommenti aðeins seinna á þarna bókabloggið þitt, þá langar mig rosalega að lesa bókina hans Lance Armstrong.. Og mæli svo með ævisögu Beckhams og sérstaklega Steven Gerrard... Rosaleg lesning ;)

Sigþór (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband