Mistök eru mannleg, Fyrirgefning Guðleg
4.2.2009 | 02:13
Fyndið, ég var með heila bloggfærslu gjörsamlega uppritaða í huganum áður en ég opnaði fartölvuna. En um leið og ég opnaði bloggið þá er eins og tekið sé fyrir hendurnar á mér og tjaldið dregið fyrir, ég er gjörsamlega týndur, svart, veit ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um. Það er ekki margt sem jafnast á við það að vera vakandi á þessum ókristilega tíma með særindi í hálsinum og verki í hendi. Það jafngildir andvöku, sem er greinilega jafn vinsælt orð í mínum bókum og frasinn "að slá skjaldborg um" er í íslenskum fjölmiðlum þessa daga og undanfarna mánuði.
Afrek dagsins er Frost/Nixon. Þarna er mjög húmanísk mynd á ferðinni, að hálfu um einn umdeildasta mann samtímans. David Frost er í myndinni sýndur sem oflátungur, partýputti sem telur sig geta sigrað heiminn án þess að hafa mikið fyrir því. Hann mætir svo Richard Milhouse Nixon í viðtali og virðist sem þar hafi hann mætt ofjarli sínum. En hinn klassíski hollívúdd viðsnúningur kemur honum til bjargar og hann rís upp úr ösku þeirri sem hans egósentríska viðhorf til viðtalsins við forsetann og þeirrar gífurlegu pressu sem á honum er og veitir viðtal lífsíns, eflaust eitt athyglisverðasta viðtal sögunnar. Frost leggur allt undir fyrir viðtalið, með engan fjárhagslegan bakhjarl leggur hann upp í ferð sem er venjulegum manni ofviða, og augljóslega Frost á tímabili.
Ég er nú ekki að segja of mikið þar sem að staðreyndir málsins eru mörgum vel kunnar, og jafnvel ekki of mikið þó svo að einhverjum séu staðreyndir málsins huldar. Mín skoðun, sú skoðun sem ég myndaði mér meðan ég horfði á myndina, á R. M. Nixon er sú, að þar fer einkar mannlegur stjórnmálamaður, sem gerir mannleg mistök á þeim grundvelli að hann hafði ekki beinin til að takast á við þau gífurlega krefjandi störf sem forseti bandaríkjanna þarf að inna af hendi og einfaldlega bugaðist undir pressu. Hann er stoltur maður og er svo til ófær um að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna eigin ófullkomleika.
Þó svo að gjörðir hans séu óréttlætanlegar á allan hátt þá er ég þannig gerður að þegar ég sé bugaðan mann, mann sem hefur lotið í lægra haldi svo óumdeilanlegt sé, þá á ég mjög erfitt með annað en að hafa með honum samúð, og stundum finnst mér það óþægilegt, sérstaklega þegar þjóðfélagið og óskrifaðar siðareglur samfélagsins kalla á hreint hatur.
En er hatur ekki annars sjúkdómseinkenni þess sem ber mikinn biturleik í brjósti og hefur ekki nokkurt færi á að fá útrás fyrir biturðina?
Ekki er allt svo með öllu slæmt að ekki megi af draga af því lærdóm.
Kv. Þór "Með heitt kakó í bjórglasi" Ólafss
Athugasemdir
Nixon hefur síðustu ár verið með vanmetnustu forsetum BNA eins og JFK hefur verið með þeim ofmetnustu. Nixon dró úr hernaði í Víetnam og greinilega stefndi að því að hætta þar. Hann fór í heimsókn til Kína og undirritaði SALT I og ég held líka SALT II við Sovét um takmörkun kjarnorkuvopnaeigna. Ekki alslæmur kall á ferðinni.
Torfi (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 08:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.