Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Mistök eru mannleg, Fyrirgefning Guðleg
4.2.2009 | 02:13
Fyndið, ég var með heila bloggfærslu gjörsamlega uppritaða í huganum áður en ég opnaði fartölvuna. En um leið og ég opnaði bloggið þá er eins og tekið sé fyrir hendurnar á mér og tjaldið dregið fyrir, ég er gjörsamlega týndur, svart, veit ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um. Það er ekki margt sem jafnast á við það að vera vakandi á þessum ókristilega tíma með særindi í hálsinum og verki í hendi. Það jafngildir andvöku, sem er greinilega jafn vinsælt orð í mínum bókum og frasinn "að slá skjaldborg um" er í íslenskum fjölmiðlum þessa daga og undanfarna mánuði.
Afrek dagsins er Frost/Nixon. Þarna er mjög húmanísk mynd á ferðinni, að hálfu um einn umdeildasta mann samtímans. David Frost er í myndinni sýndur sem oflátungur, partýputti sem telur sig geta sigrað heiminn án þess að hafa mikið fyrir því. Hann mætir svo Richard Milhouse Nixon í viðtali og virðist sem þar hafi hann mætt ofjarli sínum. En hinn klassíski hollívúdd viðsnúningur kemur honum til bjargar og hann rís upp úr ösku þeirri sem hans egósentríska viðhorf til viðtalsins við forsetann og þeirrar gífurlegu pressu sem á honum er og veitir viðtal lífsíns, eflaust eitt athyglisverðasta viðtal sögunnar. Frost leggur allt undir fyrir viðtalið, með engan fjárhagslegan bakhjarl leggur hann upp í ferð sem er venjulegum manni ofviða, og augljóslega Frost á tímabili.
Ég er nú ekki að segja of mikið þar sem að staðreyndir málsins eru mörgum vel kunnar, og jafnvel ekki of mikið þó svo að einhverjum séu staðreyndir málsins huldar. Mín skoðun, sú skoðun sem ég myndaði mér meðan ég horfði á myndina, á R. M. Nixon er sú, að þar fer einkar mannlegur stjórnmálamaður, sem gerir mannleg mistök á þeim grundvelli að hann hafði ekki beinin til að takast á við þau gífurlega krefjandi störf sem forseti bandaríkjanna þarf að inna af hendi og einfaldlega bugaðist undir pressu. Hann er stoltur maður og er svo til ófær um að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna eigin ófullkomleika.
Þó svo að gjörðir hans séu óréttlætanlegar á allan hátt þá er ég þannig gerður að þegar ég sé bugaðan mann, mann sem hefur lotið í lægra haldi svo óumdeilanlegt sé, þá á ég mjög erfitt með annað en að hafa með honum samúð, og stundum finnst mér það óþægilegt, sérstaklega þegar þjóðfélagið og óskrifaðar siðareglur samfélagsins kalla á hreint hatur.
En er hatur ekki annars sjúkdómseinkenni þess sem ber mikinn biturleik í brjósti og hefur ekki nokkurt færi á að fá útrás fyrir biturðina?
Ekki er allt svo með öllu slæmt að ekki megi af draga af því lærdóm.
Kv. Þór "Með heitt kakó í bjórglasi" Ólafss
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kómískar hliðar tilverunnar?
2.2.2009 | 23:20
Dagurinn í dag var mér á marganhátt þungbær, án þess þó að ég ætli að dramatísera neitt með það... ég var bara latur í dag. Semsagt, dagurinn í dag var á engan hátt erfiðari en aðrir dagar að jafnaði heldur gerði ég mér hann gríðarlega erfiðan með því einu að vera latur. Það var einhvern veginn allt erfitt, erfitt að fara framúr, erfitt að fá mér að borða og erfitt að koma mér á æfingu. Æfingin var ómöguleg og ég naut hennar ekki á neinn hátt. Herra neikvæðni rakst svo á frétt um að slökkviliðsstöð í Japan hafði brunnið. Alheimurinn var að segja mér að "cheer up". Hversu kómískt og kaldhæðnislegt er það að það kvikni í slökkviliðsstöð? Atvik málsins voru þau að allir úr liðinu voru í útkalli nema einn sem var eftir að vakta stöðina. Sá var að elda sér mat í vömb við eldavélina þegar hann fær skyndilegt útkall svo að hann ríkur út. Það kviknar í útfrá hellunni. Eldvarnir 103: Aldrei skilja hellu eftir í gangi!
Það er svona, og í kjölfarið fer hugurinn af stað þar sem að ég er að stunda nýjustu fíknina mína, www.liveleak.com, og er að vídjóa mig til um ástand mála í heiminum. Ég ramba inn á vídjóblogg hjá bandarískum hermanni sem lýsir sinni fyrstu reynslu af dauðanum. Hann lendir í skotárás í Bagdad og í kjölfarið sér hann hvar ungur strákur hleypur hús úr húsi með minni strák í fanginu en er vísað á dyr í hvert skipti. Hann kallar á strákinn að koma sem hann og gerir. Hermaðurinn sér þá að strákurinn sem hann heldur á hafði verið skotinn í hausinn, óheppinn að vera á rölti akkúrat á þessu svæðinu, skotinn í hausinn fyrir það eitt að vera á rangri götu á röngum tíma.
Er það sjálfselska að vera þakklátur fyrir að búa á íslandi? Er það vanþakklæti að hætta að lýta á það sem forréttindi að búa á íslandi þó að ástand efnahagsmála er eins og það er?
Ég held við megum öll vera gífurlega þakklát fyrir þá guðsgjöf sem það er að hafa fæðst á íslandi og það hryggir mig hvernig fáir menn hafa vanvirt þá guðsgjöf.
Fjármagnið ræður.... því miður!!
kv. Þór "Cosmic" Ólafss
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1. Febrúar 2003
1.2.2009 | 23:23
BBC tekur til fréttir af liðnum atburðum sem eiga sér stað á 1.febrúar í nútímasögunni. Þau þrjú atriði sem týnd eru til fyrir daginn í dag eru frá árunum 2003, 1979 og 1953.
Árið 1953 skall á stormur við austurströnd bretlandseyja sem varð rúmlega þrjúhundruð manns að bana. Í kjölfarið lögðu bretar mikla fjármuni í að styrkja varnargarða við sjávarsíðuna til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar gætu endurtekið sig. Vísindamenn töldu þó að slíkur veðurofsi væri það óalgengur að mögulega mætti reikna með að stormur næði sama styrk á einu sinni á 250 árum en þær líkur gætu aukist til muna fyrir tilstuðlan hnattrænnar hlýnunar. Núna, 50 árum síðar, er hættan á slíkum flóðum enn til staðar og það er ekki langt síðan stórt flóð var í heimsfréttum frá bretlandi.
1979 snéri Ayatollah Khomeini úr útlegð til Íran. Andspyrnuhreyfing hans varð í kjölfarið sífellt öflugri og tveim vikum síðar sagði Shahpur Bakhtiar þáverandi forsætisráðherra af sér embætti og flúði til Parísar þar sem hann fannst myrtur í íbúð sinni árið 1991. Í apríl sama ár og hann snéri úr útlegð, 1979, var svo stofnað Islamska Lýðveldið Íran fyrir hans tilverkan.
2003 komst það í heimsfréttirnar þegar geimskutla frá Nasa fataðist flugið og hrapaði inn í gufuhvolf jarðar á ógnarhraða þar sem það splundraðist við álagið. Allir 7 geimfararnir sem voru innanborð létu lífið. Þetta var eina geimskipið sem sent var frá Nasa af þeim 42 sem þá höfðu verið send sem ekki náði heim heilu og höldnu. Ástæða slyssins var bilun í hitahlífum skipsins sem skemmdust við flugtak samkvæmt rannsókn sem gerð var.
kv. Þór "Fréttafíkill" Ólafss
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)